Íslandsbanka óheimilt að krefjast kostnaðar af yfirdráttarláni

Mánudaginn 5. maí 2014 var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness dómur í máli E-591/2013 sem markar ákveðin tímamót í neytendavernd á Íslandi.

Í málinu stefndi Íslandsbanki neytanda til greiðslu á skuld vegna yfirdráttarláns. Neytandinn gerði kröfu um að hann yrði sýknaður af kröfum bankans á grundvelli skuldajafnaðar, þar sem bankinn hefði ekki gert við hann skriflegan samning þar sem kæmu fram nægjanlegar upplýsingar um vexti og annan lántökukostnað. Byggði neytandinn á skýrum ákvæðum laga um neytendalán nr. 121/1994 þar sem skýrt er kveðið á um að lánveitandi geti ekki krafið neytanda um vexti eða annan lántökukostnað láti hann þetta hjá líða.

Neytandinn setti því fram þá kröfu í málinu að hann ætti rétt á endurgreiðslu alls kostnaðar sem hann hefði greitt af yfirdráttarláni sínu auk vaxta, svokallaðra seðlabankavaxta. Í þessu máli háttaði svo til að uppreiknuð krafa neytandans nægði til að mæta kröfu bankans að fullu og því var gerð sú krafa að neytandinn yrði alfarið sýknaður af kröfum bankans.

Skemmst er frá því að segja að dómarinn í málinu féllst á öll rök neytandans og sýknaði hann af kröfu Íslandsbanka. Sérstaklega er vert að minnast á að dómarinn hafnaði þeim rökum bankans að neytandinn hefði sýnt af sér tómlæti við gæslu réttinda sinna og vísaði þar til markmiða og tilgangs laganna, með sérstakri áherslu á að um væri að ræða innleiðingu á tilskipun ESB um neytendalán.

Væntanlega hefur stór hluti neytenda á Íslandi tekið yfirdráttarlán eftir 11. janúar 2001 en líklegt má telja að víða sé pottur brotinn þegar kom að gerð skriflegra samninga og upplýsinga um vexti og annan lántökukostnað. Lántakendur gætu þar að leiðandi átt rétt á endurgreiðslu vaxta og annars lántökukostnað. Er því rétt að hvetja neytendur til að kanna rétt sinn gagnvart lánveitendum.

Hér má sjá umfjöllun um málið á ruv.is

Hér má lesa dóminn