Vegna ráðgefandi álits EFTA dómstólsins

Fyrr í morgun veitti EFTA-dómstóllinn ráðgefandi álit í málinu nr. E-27/13, en þar svaraði rétturinn sex nánar tilgreindum spurningum sem Héraðsdómur Reykjavíkur beindi til hans, vegna málareksturs Sævars Jóns Gunnarssonar þar fyrir dómi í málinu nr. E-338/2013.  Málið höfðaði Sævar Jón með stuðningi Verkalýðsfélags Akraness, í þeim tilgangi að fá skorið úr um lögmæti verðtryggingar og framkvæmdar hennar.  

Sævar Jón óskaði eftir að átta nánar tilgreindar spurningar yrðu sendar EFTA-dómstólnum til úrlausnar. Héraðsdómur Reykjavíkur sendi einungis eina af þeim spurningum til dómsins, en því til viðbótar fimm spurningar sem Hæstiréttur Íslands hafði samið og höfðu þegar verið sendar EFTA-dómstólnum í máli Gunnars Engilbertssonar og leyst var úr í málinu nr. E-25/13, en niðurstaða í því máli lá fyrir hinn 28. ágúst sl.  Voru svör dómstólsins við þeim fimm spurningum þau sömu nú, líkt og vænta mátti.

Sú spurning sem nú fékkst svar við er eftirfarandi:

Samrýmist það ákvæðum tilskipunar nr. 87/102/EBE um neytendalán, eins og tilskipuninni var breytt með tilskipun nr. 90/88/EBE og tilskipun nr. 98/7/EB, að við gerð lánssamnings, sem bundinn er vísitölu neysluverðs samkvæmt heimild í settum lögum og tekur því breytingum í samræmi við verðbólgu, sé við útreikning á heildarlántökukostnaði og árlegri hlutfallstölu kostnaðar,sem birtur er lántaka við samningsgerðina, miðað við 0% verðbólgu en ekki þekkt verðbólgustig á lántökudegi?

Svar EFTA-dómstólsins við spurningunni er eftirfarandi:

Þegar lánssamningur er bundinn við vísitölu neysluverðs, samrýmist það ekki tilskipun 87/102/EBE að miðað sé við 0% verðbólgu við útreikning á heildarlántökukostnaði og árlegri hlutfallstölu kostnaðar ef þekkt verðbólgustig á lántökudegi er ekki 0%. Það er landsdómstólsins að meta, að teknu tillit til allra atvika málsins, hvaða áhrif röng upplýsingagjöf af þessu tagi hefur og hvaða úrræðum er hægt að beita af því tilefni, að því gefnu að þeirri vernd sem tilskipun 87/102/EBE veitir, eins og dómurinn skýrir hana, sé ekki stefnt í hættu.

 Með þessu svari er í reynd fallist á sjónarmið Sævars Jóns um þennan þátt málsins, sem og lögmanna hans sem settu fram túlkanir sínar um framangreint í lögfræðiáliti til Verkalýðsfélags Akraness á árinu 2012.

EFTA-dómstóllinn taldi þannig að hugtakið „heildarlánskostnaður“ í neytendalánatilskipuninni fæli í sér allan kostnað sem neytanda bæri skylda til að greiða samkvæmt lánssamningnum, að meðtöldum vöxtum og kostnaði sem leiddu af verðtryggingu höfuðstólsins. Dómstóllinn taldi að lánssamningur sem gerði ráð fyrir 0% verðbólgu á tíma þegar verðbólga væri töluvert hærri, gæfi ekki rétta mynd af þeim kostnaði sem leiddi af verðtryggingu og þar með heildarlántökukostnaði. Að því gefnu að þeirri vernd sem neytendalánatilskipunin veitir samkvæmt túlkun dómstólsins væri ekki teflt í tvísýnu áréttaði EFTA-dómstóllinn að það væri landsdómstólsins að meta, að teknu tilliti til allra atvika málsins, hvaða áhrif röng upplýsingagjöf af þessu tagi hefði og hvaða úrræðum væri hægt að beita af því tilefni.

EFTA-dómstóllinn komst einnig að þeirri niðurstöðu að ef lánastofnun léti hjá líða að upplýsa viðskiptavin sinn fyllilega um heildarlántökukostnað og árlega hlutfallstölu kostnaðar samkvæmt tilskipuninni um neytendalán, gæti það einnig talist til óréttmætra viðskiptahátta gagnvart neytendum samkvæmt tilskipun 2005/29/EBE um óréttmæta viðskiptahætti gagnvart neytendum á innri markaðnum, sbr. lög nr. 57/2005.

Dómstóllinn benti á að þær spurningar landsdómstólsins er snertu tilskipunina um óréttmæta skilmála væru efnislega samhljóða spurningunum sem nánar hefði verið fjallað um í máli E-25/13 Gunnar V. Engilbertsson gegn Íslandsbanka hf. Í ljósi efnis spurninganna þótti engin ástæða til að greina á milli veðláns, sem fyrra málið snerist um, og neytendaláns, eins og þetta mál lyti að. Svörin urðu því efnislega samhljóða í báðum málum.

Í sameiginlegri fréttatilkynningu fjármálaráðuneytisins, Seðlabanka Íslands og Frjármálaeftirlitsins sem birt hefur verið vegna dóms EFTA-dómstólsins, er sérstaklega tekið fram að lán Sævars Jóns sé ekki fasteignaveðlán.  Fyrir liggur að húsnæðislán (fasteignaveðlán) voru felld undir gildissvið neytendalánalaga hér á landi hinn 11. janúar 2001.  Séu atvik því sambærileg að því er þennan þátt málsins varðar (þ.e. gert ráð fyrir 0% verðbólgu í greiðsluáætlun), í slíkum lánasamningum frá þeim tíma, verður að telja að niðurstaðan hafi skýrt fordæmisgildi, sbr. niðurstöðu EFTA-dómstólsins í máli Gunnars Engilbertssonar.

Mikið er spurt um áhrif þess, ef íslenskir dómstólar staðfesta niðurstöðu EFTA-dómstólsnis í málinu og þá um leið hvaða afleiðingar það kunni að hafa fyrir neytendur sem gert hafa lánasamninga þar sem miðað er við 0% verðbólgu.  Þá er fyrst að nefna skýr ákvæði 14. gr. laga nr. 121/1994, þess efnis að með öllu sé óheimilt að krefjast og innheimta frekari lántökukostnað en þann sem sé tilgreindur í greiðsluáætlun og fram komi í útreikningi um árlega hlutfallstölu kostnaðar lánsins.  Áhrif verðtryggingarinnar falla þar með alfarið niður, sé ekki gert ráð fyrir kostnaði vegna hennar í greiðsluáætlunum.

Framhald þessa máls hlýtur að okkar mati að ráðast að miklu leyti af niðurstöðum Evrópudómstólsins varðandi túlkun á tilskipunum um neytendalán og ósanngjarna skilmála í neytendasamningum. Ber þar helst að nefna þrjú mál sem vitnað er til í niðurstöðu EFTA dómstólsins. Í máli Pohotovost er það niðurstaða Evrópudómstólsins að hafi árleg hlutfallstala kostnaðar ekki verið birt lántaka leiði það til þess að óheimilt sé að innheimta nokkurn kostnað af slíku láni. Þá segir dómstóllinn í máli Perenicova Perenic að of lágt reiknuð árleg hlutfallstala kostnaðar sé til þess fallin að blekkja neytandann og því óréttmætir viðskiptahætti sem líta þurfi til við mat á sanngirni samningsskilmála um lántökukostnað. Þá komst dómstóllinn að því í máli Banesto að ef skilmáli í neytendasamningi sé ósanngjarn beri dómstólnum að víkja þeim skilmála alfarið til hliðar en sé óheimilt að breyta honum. Í málinu taldi spænskur dómstóll að dráttarvaxtaákvæði væri ósanngjarnt og breytti samningnum á þá leið að miða við lögfesta dráttarvexti sem voru mun lægri en dráttarvextir samkvæmt samningi. Þetta taldi Evrópudómstóllinn algjörlega óheimilt. 

Rökrétt niðurstaða er því sú að hin ranga upplýsingagjöf leiði til þess að óheimilt verði að krefjast kostnaðar sem hlýst af verðtryggingu lánanna en að öðru leyti standi samningar óbreyttir.

Við teljum sérstaka ástæðu til að óska íslenskum neytendum til hamingju með niðurstöðu EFTA-dómstólsins í málinu.

Hlekkur á dóm EFTA dómstólsins

Hlekkur á viðtal við Björn Þorra Viktorsson, hrl. á mbl.is

Hlekkur á viðtal við Björn Þorra Viktorsson, hrl. á visi.is

Málflutningur í Lúxemborg

Í byrjun júní héldum við hjá Lögmönnum Laugardal til Lúxemborgar til að flytja mál Sævars Jóns Gunnarssonar gegn Landsbankanum hf. fyrir EFTA-dómstólnum, en í málinu er tekist á um grundvallaratriði í neytenda- og neytendalánalöggjöfinni.

Fyrir dóminum lágu 6 spurningar. Annars vegar 5 spurningar sem vörðuðu tilskipun um ósanngjarna skilmála í neytendasamningum og eru þær spurningar sama efnis og í máli Gunnars Engilbertssonar gegn Íslandsbanka hf. en það mál var flutt í byrjun apríl.

Hins vegar varðaði fyrsta spurningin tilskipun um neytendalán og hvort það samrýmdist þeirri tilskipun og lögum um neytendalán að við upplýsingagjöf til neytenda við lántöku væri heildarkostnað lántakenda af verðtryggðum lánum reiknaður miðað við 0% verðbólgu út lánstímann. 

Í ljósi þess að í apríl var flutt mál fyrir EFTA-dómstólnum þar sem hinar 5 spurningar er varða ósanngjarna skilmála í neytendasamningum og í ljósi þess að hlutverk málflutnings fyrir EFTA-dómstólnum er fyrst og fremst að svara málsástæðum og rökum annarra aðila að málinu snérist málflutningur að mestu leyti um fyrstu spurninguna.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og Eftirlitsstofnun EFTA tóku heilshugar undir málflutning Sævars Jóns í málinu og sögðu ljóst að óheimilt væri að undanskilja nokkurn kostnað sem ekki væri sérstaklega undanskilin þegar reiknaður væri heildarlántökukostnaður og árleg hlutfallstala kostnaðar. 

Hér má sjá skýrslu framsögumanns EFTA-dómstólsins í málinu.

Frétt Viðskiptablaðsins frá 10. júní.

Frétt Viðskiptablaðsins frá 17. júní.

Íslandsbanka óheimilt að krefjast kostnaðar af yfirdráttarláni

Mánudaginn 5. maí 2014 var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness dómur í máli E-591/2013 sem markar ákveðin tímamót í neytendavernd á Íslandi.

Í málinu stefndi Íslandsbanki neytanda til greiðslu á skuld vegna yfirdráttarláns. Neytandinn gerði kröfu um að hann yrði sýknaður af kröfum bankans á grundvelli skuldajafnaðar, þar sem bankinn hefði ekki gert við hann skriflegan samning þar sem kæmu fram nægjanlegar upplýsingar um vexti og annan lántökukostnað. Byggði neytandinn á skýrum ákvæðum laga um neytendalán nr. 121/1994 þar sem skýrt er kveðið á um að lánveitandi geti ekki krafið neytanda um vexti eða annan lántökukostnað láti hann þetta hjá líða.

Neytandinn setti því fram þá kröfu í málinu að hann ætti rétt á endurgreiðslu alls kostnaðar sem hann hefði greitt af yfirdráttarláni sínu auk vaxta, svokallaðra seðlabankavaxta. Í þessu máli háttaði svo til að uppreiknuð krafa neytandans nægði til að mæta kröfu bankans að fullu og því var gerð sú krafa að neytandinn yrði alfarið sýknaður af kröfum bankans.

Skemmst er frá því að segja að dómarinn í málinu féllst á öll rök neytandans og sýknaði hann af kröfu Íslandsbanka. Sérstaklega er vert að minnast á að dómarinn hafnaði þeim rökum bankans að neytandinn hefði sýnt af sér tómlæti við gæslu réttinda sinna og vísaði þar til markmiða og tilgangs laganna, með sérstakri áherslu á að um væri að ræða innleiðingu á tilskipun ESB um neytendalán.

Væntanlega hefur stór hluti neytenda á Íslandi tekið yfirdráttarlán eftir 11. janúar 2001 en líklegt má telja að víða sé pottur brotinn þegar kom að gerð skriflegra samninga og upplýsinga um vexti og annan lántökukostnað. Lántakendur gætu þar að leiðandi átt rétt á endurgreiðslu vaxta og annars lántökukostnað. Er því rétt að hvetja neytendur til að kanna rétt sinn gagnvart lánveitendum.

Hér má sjá umfjöllun um málið á ruv.is

Hér má lesa dóminn